Covid – Heimavist – Gefur

Hvað gefur hún? Hún gefur mörgum okkur auka tíma.

Margrét Leifsdóttir arkítekt og heilsumarkþjálfi skrifar

Tækifæri til að raunverulega ákveða í hvað við viljum verja tíma í.
Núna getum við ekki sagt að við höfum því miður ekki tíma til að gera þetta og hitt.
Tími er ein mesta og besta gjöf sem hægt er að gefa, hvort sem það er gjöf til okkar sjálfra eða samverustundir með öðrum.

Í hvað ert þú að verja tíma þínum?
Við erum fljót að gleyma. Ég man til dæmis ekki hvað ég gerði í gær. Ég er reyndar orðin 50 ára, það gæti spilað inní en ég veit um marga aðra sem eru ekki orðnir 50 sem muna heldur ekki hvað þeir gerðu í gær.

Eitt ráð við því er að skrifa dagbók. Í dag ætla ég sjálf að byrja að skrifa dagbók. Þessir dagar sem við upplifum núna eru skrítnir, óvenjulegir og við höfum mörg meiri tíma en venjulega. Ég fæ þessa hugmynd að láni frá vini mínum sem sagði við mig í gær, ég veit ekkert hvað dagarnir fara í þess vegna ákvað ég að skrifa dagbók á hverju kvöldi.

Ég held að það hjálpi okkur að forgangsraða og velja hvernig við viljum verja tímanum. Viljum við verja honum í að byggja okkur upp eða viljum við verja honum með því að draga okkur niður?

Það er ótrúlega mikið í boðið af uppbyggilegu ókeypis efni. Guðni Gunnars í Rope yoga setrinu er búinn að vera með daglegar hugvekjur þessa vikuna, Alda Karen gerir alla fyrirlestrana sína aðgengilega á netinu fyrir okkur, tónlistarfólk gefur af sér og spilar og syngur fyrir okkur og svo mætti lengi telja. Það eru allir svo góðir og tilbúnir að gefa af sér.

Eitt sem gæti komið fyrir okkur er að tíminn myndi bara hlaupa framhjá okkur og við vissum ekkert hvað við gerðum við hann.

Þess vegna er gott að skrifa dagbók þar sem við skrifum niður hvað við gerðum þann daginn og bæta jafnvel við dagskrá næsta dags. Næsta kvöld hökum við svo við hvað við náðum að gera.

Þegar ég var að bursta tennurnar í morgun var ég að flýta mér. Síðan fattaði ég í miðjum klíðum að ég þyrfti ekkert að flýta mér. Ég hafði nógan tíma. Nógan tíma til að bursta tennurnar í vitund, vera viðstödd gjörninginn. Þetta er eitthvað sem Guðni Gunnarsson talar mikið um, að mæta á staðinn að vera í viðveru í stað fjarveru. Hann talar líka um að þegar við borðum er mikilvægt að borða í vitund. Til dæmis þegar við borðum mat sem er að hugga ákveðnar tilfinningar þá skiptir miklu máli að borða í vitund því þá þurfum við minna af honum.

Hugmyndir:

 • Skrifa dagbók – Þökkum fyrir – skrifum niður þrennt á hverju kvöldi
 • Finnum fyrir hverju við brennum, hvar liggur ástríðan okkar?
 • Taka til í Geymslum, skápum og stöðum sem við höfum aldrei tíma til að líta á
 • Hugleiðum
 • Gerum æfingar heima. Margir bjóða upp á tíma á netinu
  t.d.
  Dans og Jóga Hjartastöð sem er með zumba, jóga og danstíma í gegn um Zoom.
 • Sofum
 • Lesum
 • Eldum oftast hollan mat – bara stundum óhollan og njótum þess í botn
 • Förum út að leika
 • Stöldrum við nokkrum sinnum yfir daginn og veitum andardrættinum athygli.

Koma svo!
Nýtum þennan tíma í uppbyggingu og kjarnavinnu.

Æfum okkur í að mæta á staðinn og vera í vitund.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *