Dans & Jóga hugvekja 2017

Gleðilegt nýtt ár !

Við höldum áfram að dansa og gera jóga á nýju ári, eins og við höfum gert af krafti mörg síðastliðin ár. Danssmiðjan var stofnuð árið 1993 og við erum því á okkar 24. ári í ár. Fyrstu 2 árin voru einungis kenndir samkvæmisdansar. 1993Árið 1995 var haldið fyrsta línudans námskeiðið. Jóga með Theu hófst í ársbyrjun 2010 og Zumba æðið var sett af stað hjá okkur haustið 2010.

Frá upphafi hefur okkar aðalmarkmið verið að færa gleði og ánægju inn í tilveru fólks með dansi og jóga. Fótafimi, betra úthald, aukinn kraftur, brenndar hitaeiningar, aukinn liðleiki og óteljandi svitadropar fylgja frítt með. Aðalmálið er að næra huga, sál og líkama með tónlist, uppörvun, brosi, hlátri, gleði og hamingju en öll þessi næringarefni og reyndar ótal mörg önnur má finna í Zumba, samkvæmisdönsum, línudansi og jóga.

Á síðasta ári komu ótal margir til okkar í fyrsta sinn til að prófa það sem svo margir höfðu mælt með eða það sem þá hafði svo lengi langað að prófa. Við bjóðum öllum sem vilja frían kynningartíma í jóga eða Zumba að skrá sig hér á síðunni og mæta svo þegar þeim hentar, enda eru allir jóga tímar og öll Zumba partý öllum opin og mætingin frjáls. Í línudansi var haldið fjölmennt byrjendanámskeið síðastliðið haust og rúmlega 25 pör og hjón spreyttu sig á cha cha, jive, foxtrot og vals á byrjendanámskeiði í samkvæmisdönsum.

Við fögnum öllum sem koma og erum endalaust þakklát fyrir að hitta svo margt skemmtilegt fólk á öllum aldri og af öllum stærðum og gerðum í hverri viku. Hin jákvæða orka sem verður til í hverjum dans og jóga tíma magnast með hverri persónu sem mætir til að skemmta sér og njóta þess sem boðið er upp á. Þannig fá allir það sem þeir leggja inn, margfalt til baka, kennarar og nemendur.

Við vonum að heimsóknir til okkar verði enn fleiri árið 2017 og viljum að þú komir til okkar í hverri viku til að komast í þá orku-hleðslu sem starfsemin okkar er, eins og góð vinkona okkar lýsti henni eitt sinn. Þú verður glaðari, skemmtilegri, orkumeiri, bjartsýnni og jákvæðari manneskja og hjálpar öllum hinum að verða það líka.

Við hefjum störf að nýju eftir gleðilegt jóla og áramóta frí, laugardaginn 7. janúar kl. 11 með dúndur, nýárs-Zumba partý

Línudans, Zumba partý og jóga tímar verða svo á dagskránni frá og með 9. janúar samkvæmt stundarskrá. Byrjendanámskeið í samkvæmisdönsum hefst 18. janúar.

Komdu í dans og jóga og njóttu með okkur.