Kveðja frá Theu sem er í veikindaleyfi

Hæhæ elsku fallegu jógar og dansarar

Mig langar að senda ykkur, kæru vinir, nokkrar línur og þakka ykkur af öllu hjarta fyrir að vera svona dugleg að mæta í okkar fallegu Dans & Jóga Hjartastöð.

Ég er ykkur svo þakklát fyrir að velja Hjartastöðina sem ykkar stað og athvarf til þess að næra ykkur á líkama og sál.
Það er svo gríðarlega mikilvægt að eiga góða heilsu, hún er það dýrmætasta sem við eigum. Þess vegna er svo mikilvægt að við  setjum okkur í fyrsta sæti og pössum uppá okkar fallegu og góðu heilsu.

Við þurfum að sofa vel og borða hollan og góðan mat sem elskar okkur á móti.
Hugurinn getur verið ansi krefjandi. Hann vill ráða ferðinni og fer oft með okkur út um víðan völl. Þess vegna þurfum við að finna leiðir til þess að róa hugann, til dæmis með því að stunda hugleiðslu, jóga nidra, jóga og dans. Fara í göngutúra og sund, hlægja og hlakka til svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta er ég að gera þessa dagana. Heilsan mín hefur ekki verið nógu góð. Í mars greindist ég með gláku í báðum augum og í júní greindist ég með ofvirkan skjaldkirtil og því fylgja mikil einkenni, til dæmis mikil mæði sem veldur því að ég á orðið erfitt með að kenna dans & Jóga.

Skjaldkirtils sjúkdómurinn og glákan hafa lagst illa á augun mín sem veldur því að sjóntaugin á hægra auga er sködduð og ég er farin að sjá illa.

Ég er komin í hendurnar á góðum læknum, innkirtlalækni og glákusérfræðingi sem ætlar að gera aðgerð á hægra auganu mínu, ég fer í hjáveituaðgerð á auganu til þess að stoppa að ekki verði meiri skaði á sjóntauginni.

Ég ætla mér með góðri hjálp elsku bestu fjölskyldunnar minnar, góðra vina og góðra lækna að ná aftur heilsu. Ég hlakka svo mikið til þess að koma aftur og kenna Jóga & Dans sem er svo ótrúlega nærandi  og skemmtilegt og stór partur af mínu hjarta.

Haldið áfram að hafa gaman og verið dugleg að mæta í Hjartastöðina. Dansið og jógið í gegnum lífið þá verður allt miklu betra 🙂

Allir sem vinna í Hjartastöðinni eru yndislegar manneskjur sem munu alltaf taka vel á móti ykkur með bros á vör. Góða skemmtun ❤️

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *