Tilkynning um lokun Hjartastöðvarinnar

Kæru viðskiptavinir Dans & Jóga Hjartastöðvarinnar
 
Það er með miklum trega að við hjónin, Thea og Jói, tilkynnum ykkur að við höfum ákveðið að loka Dans & Jóga Hjartastöðinni í Skútuvogi 13A eftir sjö viðburðarík og gefandi, en einnig erfið ár í rekstri.
 
Á síðustu sjö árum höfum við notið þess að sjá ykkur vaxa og blómstra í gegnum dans og jóga. Það hefur verið ómetanlegt að vera hluti af ykkar ferðalagi, að hjálpa ykkur að finna jafnvægi, styrk og gleði í hreyfingu.
Við höfum skapað ótal minningar saman, allt frá fyrstu skrefum nýrra nemenda til hápunkta í framförum, skemmtilegum viðburðum og afrekum ykkar allra.
 
Ákvörðunin um að loka stöðinni var ekki auðveld. Þrátt fyrir ástríðuna og eljuna sem við höfum sett í reksturinn, hafa krefjandi aðstæður, bæði fjárhagslegar og persónulegar, gert það að verkum að við sjáum okkur ekki lengur fært að halda áfram.
Við höfum lagt allt okkar í að halda stöðinni gangandi og tryggja að hver tími og hvert námskeið væri fyrsta flokks. En nú stöndum við á krossgötum og höfum ákveðið að taka okkur tíma til að hlúa betur að okkur sjálfum og hjónabandinu, fjölskyldu okkar og heimili.
 
Við viljum þakka ykkur öllum fyrir ómetanlegan stuðning og hollustu. Án ykkar hefði þessi vegferð aldrei orðið jafn einstök og hún hefur verið. Þið hafið gert Dans & Jóga Hjartastöðina að því sem hún er, og við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að deila þessu ævintýri með ykkur.
 
Stöðinni hefur nú þegar verið lokað. Þau sem hafa fyrirfram greitt fyrir námskeið eða árskort, biðjum við um vera í sambandi.
 
Starfsfólk okkar hefur haft nokkra daga til að meðtaka þessa ákvörðun og víst er að flest huga nú að því hvernig þau geta haldið sínu starfi áfram á nýjum stað. 
Við munum senda út annan póst til ykkar eins og við á þegar meira liggur fyrir. VIð viljum sérstaklega þakka þessu frábæra fólki fyrir einstaklega vel unnin störf.
 
Við sendum öllum viðskiptavinum okkar bestu óskir og vonum að þið haldið áfram að finna gleði og vellíðan í hreyfingu, hvort sem það er í dansi, jóga eða annarri iðkun.
Þótt við séum að kveðja þessa stöð, verður ástríða okkar fyrir dansi og jóga alltaf með okkur, og við vonum að það sama gildi um ykkur.
 
Með kærleiks kveðju 💜
 
Thea og Jói