Ég sé þig og þú skiptir mig máli! – 5 leiðir að vellíðan

Ræktaðu samskipti…
Hreyfðu þig…
Taktu eftir…
Haltu áfram að læra…
Gefðu af þér…

”Ég sé þig og þú skiptir mig máli„  Þetta var sagt við mig um daginn og ég fann að mér hlýnaði allri að innan. Samt var þetta sýnikennsla á fyrirlestri. Ég var á mjög góðum fyrirlestri hjá Guðrúnu Snorradóttur mannauðsráðgjafa og markþjálfa þar sem hún var að kynna fyrir okkur 5 leiðir að vellíðan. Með þessari setningu var hún að benda okkur á þörf okkar fyrir viðurkenningu og líka þörf okkar fyrir að finnast við vera mikilvæg.
Eitt af því sem við þráum er að finna að við skiptum miklu máli. En hvenær og hvernig finnum við fyrir því? Er það ekki í samskiptum okkar við okkur sjálf og aðra?
Það er nauðsynlegt fyrir okkur að rækta samskipti við fólkið í kringum okkur. Það er einmitt eitt af 5 lykilatriðum sem eykur vellíðan okkar samkvæmt niðurstöðu vinnuhóps sem settur var á laggirnar af bresku ríkisstjórninni.
Hvað er mikilvægast fyrir vellíðan okkar?
Árið 2008 fól vinnuhópur á vegum bresku ríkisstjórnarinnar (Foresight‘s Mental Capital and Wellbeing Project) samtökum sem nefnast New Economic Foundation að fara yfir rannsóknir yfir 400 rannsakenda víða um heim í von um að finna gagnreyndar aðgerðir til þess að bæta líðan og auka hamingju fólks í daglegu lífi.
Fimm leiðir að vellíðan er afrakstur þessarar vinnu, en þær byggja á niðurstöðum vandaðra rannsókna víða að úr veröldinni, og fela í sér einföld skref til þess að efla lífsánægju og vellíðan alla ævina.
Rannsóknir sýna að jafnvel lítilsháttar aukning vellíðunar og lífshamingju getur átt þátt í að draga úr ákveðnum geðrænum vandamálum og hjálpað fólki til þess að blómstra í lífinu. (fengið af vef landlæknisembættisins)
Fyrsta leiðin af fimm er “Ræktaðu samskipti„

Ræktaðu samskipti…

Myndaðu tengsl við fólkið í kringum þig, við fjölskylduna, vini þina, samstarfsfólk og nágranna. Ræktaðu tengslin heima hjá þér, í vinnunni, í skólanum og nánasta umhverfi þínu.
Líttu á þessi tengsl sem hornsteina lífs þíns og gefðu þér tíma til að hlúa að þeim. Að skapa þessi tengsl auðgar líf þitt. (fengið af vef landlæknisembættisins)
Hér er hægt að prenta út veggspjald með 5 leiðum af vellíðan.

Jólamánuðurinn einkennist oft af stressi, álagi og væntingum sem við gerum til okkar sjálfra og annarra. Hvað ef við slökum aðeins á kröfunum og samanburði við aðra og búum til þema fyrir desember með yfirskriftinni “Ræktaðu samskipti„ bæði við okkur sjálf og aðra í kringum okkur?

Hér koma nokkrar hugmyndir að viðburðum í þemamánuðinum:

  1. Gera viðburðajóladagatal með börnunum þínum. Skrifa niður á miða viðburð fyrir hvern dag, viðburðirnir geta verið misstórir og tímafrekir. Allt frá því að lesa saman í bók, heimsókn á þjóðminjasafnið eða Sundhöllina og allt þar á milli.
  2. Heimsæktu eða búðu til stefnumót með einum vini/vinkonu sem þú ert búin að ætla þér að hitta allt árið en hefur ekki gert.
  3. Hvaða manneskja hefur sagt eitthvað við þig sem hefur breytt lífi þínu til hins betra? Skrifaðu viðkomandi bréf eða mæltu þér mót við hann eða hana og þakkaðu viðkomandi fyrir.
  4. Stattu fyrir skemmtilegum viðburði í vinnunni, plank, dans, teygjuæfingum, armbeygjum, gönguferð ofl.
  5. Gefðu þér gjöf. Farðu með skyrturnar þínar í hreinsun, taktu óþekktardag í vinnunni farðu fyrr heim og eigðu “me time”, sestu á kaffihús og kláraðu verkefni fyrir vinnuna (stemmning að skipta um umhverfi), skipuleggðu útlandadag á íslandi…..

Það væri gaman ef þú deildir með okkur þínum viðburðum á Zumba Facebook síðunni hjá Dans&Jóga

Megir þú eiga innihaldsríkan og ræktarsaman desember……