Ég er eins og ég er – eftir Margréti Leifsdóttur heilsumarkþjálfa

Ég er eins og ég er

Hvernig á ég að vera eitthvað annað?

ML Hari 2Ég vissi ekki hver ég var. Eða hmmm, ég vissi að ég væri þriggja barna gift móðir í vesturbænum, ég vissi að ég væri arkitekt og ég vissi að ég vildi hafa góð laun og vera óháð. Ég vissi líka að ég væri keppnismanneskja, ágæt í að fá fólk í lið með mér, bjartsýn, óþolinmóð, hvatvís og viðkvæm. Ég vissi líka að Páll Óskar og Lína Langsokkur væru mínar helstu fyrirmyndir ásamt afa mínum Gísla Halldórssyni og ömmu minni frú Láru Hákonardóttur.

Hvað þýðir að vita hver maður er? Þegar ég var tvítug og fólk talaði um að það þyrfti að finna sjálft sig, þá skildi ég ekki við hvað var átt.

En nú tel ég mig skilja það, allavega aðeins. Ef við vitum hver við erum þá vitum við hvað við viljum og hvað okkur dreymir um. Við þekkjum langanir okkar og þrár. Við þekkjum styrkleika okkar og veikleika okkar.

Góðu fréttirnar eru þær að við þurfum ekkert að vinna í veikleikum okkar (svo framarlega sem þeir séu ekki skaðlegir okkur né öðrum), við þurfum bara að vita af þeim (þekkja þá) en vinna í styrkleikum okkar.

Við erum öll einstök og allir hafa sína styrkleika og veikleika. Mörg okkar hafa tilhneigingu til þess að fela veikleikana. Það er eins og að halda boltum niðri í sundlaug, það fer mjög mikil orka í það og þegar við erum síst viðbúin þá spýtist boltinn í andlitið á okkur. Lífið verður auðveldara ef við komum til dyra eins og við erum klædd, en ég veit það er ekki alltaf auðvelt.

Ef þið þekkið ekki styrkleika ykkar þá eru hér tvær leiðir til að komast að þeim.

  1. Hugsaðu um og skrifaðu niður það sem þér finnst skemmtilegt að gera. Hvar gleymir þú þér og tekur ekki eftir hvað tímanum líður?
  2. Sendu sms á nokkra góða vini og biddu þá að nefna 3 af þínum helstu styrkleikum.

Ertu að nýta þína helstu styrkleika í daglegu lífi? Ertu að nýta styrkleika þína í vinnunni?

Þegar við nýtum styrkleika okkar, þá erum við í essinu okkar. Þegar við erum í essinu okkar þá gerum við hlutina vel og njótum þess. Allir eiga sitt ess, þetta er bara spurning um að uppgötva það!

Þetta krefst þess að við stöndum með sjálfum okkur. Hvað er það eiginlega; hefði ég spurt þegar ég var tvítug. En ég veit það aðeins betur núna. Það er þegar við tökum ákvarðanir í okkar þágu þó svo að þær geti verið erfiðar og að kannski séu ekki allir sammála þeim. Við tökum ákvarðanir í takt við það sem við brennum fyrir.

Í hjónaböndum þarf oft að gera málamiðlanir fyrst þú og svo ég, eða fyrst ég og svo þú… En það verður alltaf að koma að okkur, því annars verðum við óhamingjusöm og jafnvel lasin.

Við gerum kannski ekki stórar breytingar frá einum degi til annars en við byrjum á að sveigja skipið smám saman í rétta átt. Það tekur mislangan tíma eftir aðstæðum. En um leið og við höfum tekið ákvörðun um að breyta um stefnu þá breytast hlutirnir.

Tökum fullkomnunaráráttuna og fórnarlambið og hendum þeim í ruslið! Þegar ég breytti um stefnu á mínu skipi þá datt ég reglulega í þann fúla pytt að kenna einhverju öðru um að ég myndi ekki getað látið drauma mína rætast.

En þetta var ekki raunverulega ástæðan. Raunverulega ástæðan var sú að ég missti reglulega trúna á sjálfa mig og ég hugsaði vertu nú bara þæg og góð og gerðu eins og “ætlast” er til af þér, þú ert hvort eð er ekki nógu góð eða ekki nógu þetta og ekki nógu hitt.

Höfum hugrekki til að koma úr felum með styrkleika okkar og hæfileika. Gerum allt það sem í okkar valdi stendur til að standa með sjálfum okkur. Og munið að við þurfum fyrst að setja súrefnisgrímuna á okkur og svo á börnin.