Ljúfsárt samband mitt við sykur

Mér finnst sykur góður!

Hann veitir mér skammtíma vellíðan og er alltaf til staðar fyrir mig. Til dæmis þegar ég er leið, pirruð eða sorgmædd. En ég er með exem og þegar ég borða mikinn sykur þá gerist eitthvað af eftirfarandi;sykur

Ég versna í exeminu, kláði eykst og húðin þrútnar
Ég verð pirruð
Ég verð óróleg
Ég verð þreytt þegar blóðsykurinn fellur
Mér líður ekki vel

Ég borða samt sykur og er þeirrar skoðunar að við eigum að tala almennt vel um mat. Hins vegar er mikilvægt að við áttum okkur á hvaða áhrif ákveðnar matartegundir hafa á okkur og að við tökum meðvitaðar ákvarðanir um að borða mat sem gerir okkur ekki gott og að við skoðum afleiðingarnar án þess að dæma okkur. Alveg eins og sumir af vinum okkar taka frá okkur orku, þau eru gott fólk en við ákveðum að umgangast þau ekki of mikið því það dregur úr okkar eigin krafti.

Það hentar mér að líta á sykur sem vin sem tekur frá mér orku, en samt vil ég stundum hitta hann, en ég má alls ekki vera of mikið með honum og ég geri mér vel grein fyrir afleiðingunum. Sumum hentar að útiloka sykur alveg úr lífi sínu því þeim gengur illa að umgangast hann í hófi. Þetta verður hver og einn að finna út fyrir sig. Það er nefnilega hægt að finna sætuna í lífinu í mörgu öðru en sykri.

Aðalatriðið varðandi mat er að við lítum á hann sem orkugjafa. Ef við lítum á líkama okkar eins og flottan Ferrari sportbíl, þá þýðir ekkert að bjóða honum eitthvað ódýrt bensín, neibbs, það verður að vera það besta!

En ef mér líður ekki vel, þá finnst mér líkami minn ekki vera Ferrari sportbíll, þá finnst mér hann vera meira svona gamall skrjóður og þá býð ég honum frekar uppá ódýrt bensín eins og til dæmis sykur. Greyið skrjóðurinn hann skröltir alveg áfram en ekki næstum því eins hratt og mjúklega og Ferrari!

Við hvaða aðstæður líður þér eins og líkami þinn sé skrjóður? Skrifaðu þau atriði sem þér detta í hug niður á blað. Það gæti verið eitt af eftirfarandi atriðum;

 1. Þegar ég kem heim svöng/svangur eftir vinnudaginn
 2. Þegar börnin mín eru þreytt og pirruð og ég ræð ekki við aðstæður
 3. Seinni partinn í vinnunni
 4. Þegar mig vantar ást og umhyggju
 5. Þegar ég er reið/ur út í einhvern

Síðan þarftu að gera aðgerðaplan. Hvað getur þú gert annað við þessar aðstæður en að fá þér sykur?

Dæmi um mótvægisaðgerðir;

 1. Það bíður þín grænn drykkur í ísskápnum eða girnilegur ávöxtur þegar þú kemur heim, eða e-ð annað hollt sem þú getur gripið og borðað beint.
 2. Fáðu þér tvö vatnsglös og slakaðu á í 5 mínútur áður en þú byrjar að fást við aðstæður
 3. Þarftu hvíld? (geturðu lagt þig, eða tekið 5 – 10 mín. hugleiðslu?) eða þarftu hreyfingu og súrefni? (geturðu tekið 10 – 15 mín. göngutúr?)
 4. Kallaðu eftir hlýju frá ástvinum, sæktu þér knús og knúsaðu í 6 sek.
 5. Fáðu útrás fyrir reiði þína t.d. með góðri hreyfingu

Ef kaffi setur í gang hjá þér sykurþörf seinni partinn, slepptu því að fá þér kaffi á þeim tíma og fáðu þér eitthvað annað í staðinn eins og til dæmis te, gosvatn með lime eða kjötsoð frá suðuríslensku eldhúsi sjá nánar hér. Það að bursta tennurnar er líka gott ráð þegar sykurþörfin hellist yfir mann eða drekka tvö glös af vatni.

En ef mig langar bara í sykur og ekkert kjaftæði!!?

 1. Fáðu þér dökkt súkkulaði (minnst 70 % kakóinnihald)
 2. Búðu þér til chia graut með möndlumjólk eða vatni og settu út í hann það nammi sem þig langar í. Chia grautur með möndlumjólk, þeyttum rjóma og dökkum súkkulaðirúsínum er til dæmis mjög bragðgóður og þú borðar miklu færri rúsínur en þú myndir gera ef þú borðaðir þær eintómar. Fita slær á sykurlöngun og það er bæði ljúffengt og seðjandi að hafa þeyttan rjóma með. Sjá uppskrift/myndband af chia graut hér.
 3. Taktu óþekktardag og borðaðu allt það sælgæti eða sykur sem þig langar í. Ekki dæma þig heldur borðaðu sykurinn meðvitað og skoðaðu með opnum huga hvaða áhrif hann hefur á þig.
 4. Farðu í Zumbatíma, það er á við vænan skammt af sykri og gott betur en það!

Mér finnst gott að hugsa ég má borða allt sem mig langar þegar mig langar og eins mikið og mig langar til. Það er ekkert til sem heitir ALDREI í mínum orðaforða varðandi mat.

Þjálfum okkur þannig að við borðum allavega í 80 % tilfella mat sem gerir okkur gott og 20 % “lélegt bensín” (því stundum eru aðstæður bara þannig).

Skoðum hvað við erum að næra með sykrinum og athugum hvort við getum nært þörfina á annan hátt.

Verum sem oftast Ferrari, en þegar við ákveðum að gefa líkamanum lélegt bensín, þá skulum við ekki hafa samviskubit yfir því heldur njóta þess í botn!