Viltu stunda Zumba og ná frábærum árangri? Sjö góð ráð til að hjálpa þér strax

Þú mætir í Zumba partý og vilt að það skili árangri. Við tókum saman, handa þér, 7 góð ráð til að Zumba skili þér þeim árangri sem þú vilt ná.

Þátttaka í Zumba partýi er frábær upplifun á svo margan hátt og þegar mætt er reglulega, tvisvar – fimm sinnum í viku, lætur árangurinn ekki á sér standa.

Kennararnir setja saman lagalista sem fyllir 60 mínútur og miðar af því að hafa fjölbreytni í takti, hraða og sporum. Sum lögin fá hjartsláttinn til að auka hraðann og auka á brennslu, önnur fá miðsvæði líkamans til að hreyfast í allar áttir og enn önnur kalla á hnébeygjur, framstig, teygjur í efri búk og fleira og fleira.
Allir sem mæta búa til einstaka stemningu svo að gleðin nær völdum hjá hverjum og einum og gleðin er lykilatriði í þessari einstöku líkamsrækt.

En hvað getur þú gert til að fá meira út úr hverju partýi eða haft að markmiði sem næst á ákveðnu tímabili?

 

Númer 1 – Réttu vel úr þér
Í hvert sinn sem nýtt lag hefst og þú ætlar að byrja að dansa skaltu rétta vel úr hryggnum þannig að bein lína sé frá hnakka og niður í rófubein. Togaðu hvirfilinn örlítið upp og gefðu eftir í mjöðmunum þannig að mjaðmirnar færist aðeins aftur og yfir hælana. Þú munt öðlast fallegri dansstíl um leið og þú hlífir hryggnum og mjóbakinu og vöðvarnir þar í kring sjá um álagið sem um leið eykur brennslu.

Númer 2 – Hafðu handleggina með
Losaðu handleggina frá líkamanum og leyfðu þeim að hreyfast með í öllum dansinum. Stundum gera danskennararnir sérstakar handahreyfingar sem þú gerir þá líka en stundum eru handahreyfingar frjálsar og þá hættir fólki til að leyfa handleggjunum að síga niður að síðum. Hafðu um 3-5 sentimetra bil á mill líkamans og miðra upphandleggjana, olnboginn er ysti hluti danshreyfinganna ásamt mjöðmunum og framhandleggirnir hreyfast svo í takt við tónlistina. Þú eykur brennsluna verulega og færð ennþá fallegri handleggi og axlir.

Númer 3 – Mótstaða
Hreyfðu þig eins og þú sért í vatni. Búðu til mótstöðu við hreyfingar þínar með léttri spennu í kviðvöðvum, rassi, lærum, brjóstkassa og handleggjum. Þannig stjórnar þú því að útlimirnir skvettist ekki þangað sem þeir eiga að fara heldur nærðu betri stjórn á hreyfingum þínum sem þýðir meiri brennsla, vaxandi styrkur í vöðvum og fallegri hreyfingar.

Númer 4 – Spyrntu í gólfið
Spyrntu með táberginu í gólfið til að fá meiri kraft í skrefin. Það eru 3 leiðir til að færa sig úr stað. Ein leið er að draga lappirnar, önnur er að stika áfram með fæturna á undan sér og ein leiðin er að spyrna sér í gegnum tábergið frá einum fæti til annars og það er sú leið sem við mælum með í Zumba. Eitt frægasta dæmi í heimi um þessa spyrnu í gegn um tábergið má sjá hér. Ef þú spyrnir í gólfið seturðu miklu meiri kraft í danssporin og hreyfingin og brennslan stóreykst.

Númer 5 – Spáðu í öndunina og hjartsláttinn
Fylgstu með andardrætti þínum á meðan þú dansar. Andaðu reglulega djúpt og taktu þá langan tíma í að anda að þér.  Þegar lagið er hratt og átökin mikil skaltu reyna að anda rólega um leið og hjartslátturinn eykst. Þegar lagið er rólegt skaltu njóta þess að finna hjartsláttinn hægjast og andardráttinn dýpka. Með þessu móti nærðu betri tökum á danssporunum, hreyfingunum og öðlast meiri kraft um leið.

Númer 6 – Slepptu þér – haltu ekki aftur af þér
Taktu þátt í að skapa stemninguna sem þig langar að upplifa í partýinu. Syngdu með, hvettu þig og aðra áfram með hrópum og klappi. Hoppaðu hátt og kröftulega ef þú getur þegar það á við. Leyfðu tilfinningum þínum að vera með í partýinu og notaðu tækifærið til að losa um þær þannig að gleðin nái algjörum tökum á huganum, líkamanum og sálinni. Þetta leysir úr læðingi ótal frábær efni í líkamanum sem láta þér líða vel lengi á eftir og jafnvel alveg fram að næsta partýi.

Númer 7 -Brostu
Brostu allan tímann sem þú dansar við skemmtilegustu lögin. Það má vera að til byrja með komi brosið ekki endilega innan frá heldur þurfir þú að setja upp gervibros, en ef þú heldur andlitinu brosandi allt lagið þá smátt og smátt eykst gleðin inni í þér og þú nýtur þess enn frekar að dansa. Þó svo að sporin séu stundum flókin og þú ruglast skaltu ekki sleppa brosinu og hleypa áhyggjuhrukkum upp á ennið heldur þvert á móti hlæja að vitleysunni og halda áfram. Þetta er nefnilega partý.

 

Hvað segir þú? 

Átt þú fleiri góð ráð til að deila með öðrum ? Hefur þú prófað einhver ofantalinna ráða og getur deilt reynslu þinni?

Þú getur skrifað ummæli við greinina hér fyrir neðan, deilt á samfélagsmiðlum og sent á vini. Láttu gleðina berast – allir í Zumba

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *